Reaganbyltingin (e. The Reagan Revolution) er samheiti yfir þjóðfélagsþróun og samfélagsbreytingar í Bandaríkjunum, einkum á sviði efnahagsmála, sem tengja má við setu Ronald Reagan á forsetastóli. Breytingunum var ætlað að endurheimta horfin þjóðfélagsgildi og íhaldssöm fjölskylduviðmið, draga úr þjónustu og umfangi alríkisins, efla hinn frjálsa markað og auka hagvöxt og þjóðarframleiðslu; stækka kökuna. Að sumu leyti var Reaganbyltingin andsvar við þeirri samfélagslegu framþróun sem kenna má við Réttindabyltinguna (e. The Rights Revolution) og and-menningarhreyfinguna (e. counterculture) sem spratt upp á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar.[1][2][3][4]
Reaganbyltingin gekk að mörgu leyti upp og hafði varanleg áhrif, því umpólun (e. realigment) varð á landslagi stjórnmálanna á valdatíma Reagans í átt til íhaldssamra (e. conservative) samfélagsgilda, sérstaklega í málefnum innan Bandaríkjanna, en einnnig í stefnumörkun á alþjóðavettvangi. Talsverður efnahagsbati fylgdi valdasetu Reagans, sá mesti á friðartímum og hagvöxtur var að meðaltali um 3% á Reaganárunum. Sagnfræðingar hafa kallað tímabilið Reagantímann (e. Reagan Era), eða Reaganöldina (e. Age of Reagan).[5]