| |||
Djengis Khan
| |||
Ríkisár | 1206 – 25. ágúst 1227 | ||
Skírnarnafn | Temúdjín | ||
Fæddur | U. þ. b. 1162 | ||
Khentii-fjöllum, Mongólíu | |||
Dáinn | 18. ágúst 1227 | ||
Xingqing, Vestur-Xia | |||
Gröf | Óvíst | ||
Undirskrift | |||
Konungsfjölskyldan | |||
Faðir | Yesügei | ||
Móðir | Hoelun | ||
Eiginkonur | Börte Khulan Khatun Yesugen Khatun Yesulun Khatun Ibaqa Khatun Möge Khatun | ||
Börn | Jochi, Chagatai, Ögedei, Alakhai Bekhi, Tolui o.fl. |
Djengis Khan[1] (fæddur undir nafninu Temúdjín, u.þ.b. 1162 – 18. ágúst 1227) var stórkhan og stofnandi Mongólaveldisins, sem varð stærsta samfellda heimsveldi í mannkynssögunni eftir dauða hans. Hann komst til valda með því að sameina hirðingjaættbálka Norðaustur-Asíu. Eftir að hafa stofnað veldið og tekið upp nafnið Djengis Khan hratt hann af stað innrásum Mongóla og lagði undir sig meirihluta Evrasíu. Innrásum og landvinningum Djengis Khans fylgdu oft miklar blóðsúrhellingar og fjöldamorð á almennum borgurum. Undir lok ævi khansins réðu Mongólar yfir miklum hluta Mið-Asíu og Kína Songveldisins.
Áður en Djengis Khan dó lýsti hann Ögedei Khan, son sinn, eftirmann sinn. Síðar áttu sonarsynir Djengis eftir að skipta veldi hans upp í mörg khanöt.[2] Djengis lést árið 1227 eftir að hafa sigrað Vestur-Xiaríkið. Hann var jarðsettur í ómerktri gröf einhvers staðar í Mongólíu.[3] Afkomendur hans þöndu Mongólaveldið enn lengra út um Evrasíu með því að hertaka ríki og stofna leppríki í Kína, Kóreu, Kákasus, Mið-Asíu og stórum hlutum Austur-Evrópu og Suðvestur-Asíu. Í mörgum þessara innrása voru fjöldamorð fyrri landvinninganna endurtekin. Djengis Khan og veldi hans gátu sér því ógurlegan orðstír í sögusögnum fórnarlamba þeirra.[4]
Auk hernaðarafreka sinna kom Djengis Khan ýmsum framförum til leiðar í Mongólaveldinu. Hann tók upp úígúrska stafrófið og gerði það að ríkisstafrófi Mongólaveldisins. Hann var auk þess hlynntur verðleikaræði, hvatti til umburðarlyndis gagnvart ólíkum trúhópum í veldinu og sameinaði marga ólíka hirðingjahópa Norðaustur-Asíu. Nútímaríkið Mongólía lítur á Djengis Khan sem stofnföður sinn.[5]
Djengis Khan var alræmdur fyrir hrottaskap sinn í hernaði[6] en honum hefur einnig verið hrósað fyrir að koma öllum silkiveginum undir eina, samstillta stjórn. Þetta jók samskipti og verslun milli Norðaustur-Asíu, hinnar íslömsku Suðvestur-Asíu og hinnar kristnu Evrópu.