Ermarsund er sund í Atlantshafi á milli meginlands Evrópu (Frakklands) og eyjunnar Stóra-Bretlands og tengir Norðursjó við Atlantshafið. Nafnið kemur úr frönsku; La Manche, „ermin“. Á ensku er það kallað: English Channel. Það er um 560 km langt og breiðast 240 km, en mjóst 34 km, á milli borganna Dover og Calais.
Árið 1988 var byrjað að grafa lestargöng undir Ermarsundið og voru þau opnuð 1994 og tengja saman England og Frakkland. Göngin eru 50,5 km löng. Um þau fara hraðlestir sem kallast Eurostar.
Í sundinu eru Ermarsundseyjar, nær Frakklandi. Syllingar og franska eyjan Ouessant mynda vesturmörk sundsins.