Hypertext Transfer Protocol (HTTP) er aðferð til að senda eða taka við gögnum á veraldarvefnum. Upprunalegi tilgangurinn var að birta HTML síður, þótt núna sé HTTP líka notað til að hlaða niður t.d. myndum, hljóði, leikjum, textaskjölum og margmiðlun af allri gerð. Venjulega eru HTTP skilaboð alltaf í pörum (en ekki reglan frá og með HTTP/2), beiðni frá biðlara og svar frá miðlara. HTTP skilaboð eru byggð upp af HTTP haus og síðan gögnunum sjálfum. Til að skilja á milli gagnanna og haussins eru notuð tvö auð línubil (í útgáfum af HTTP fyrir HTTP/2). HTTP/1.1 er enn mikið notað og í nokkrum mæli næsta útgáfa HTTP, HTTP/2, sem stöðluð var 2015, og er studd af flestum vöfrum og t.d. netþjónum Google.
HTTP/3, arftaki HTTP/2 (og HTTP), var staðlað 2022,[1] og er líka nú þegar í notkun á vefnum (frá því áður en staðlað) á 25% af vefsíðum[2] og er stutt af mörgum vöfrum (75% af notendum).[3] HTTP/3 notar QUIC (sem byggir á UDP) í stað TCP, ólíkt fyrri HTTP stöðlum, og gerir vefsíður, í raun, enn sneggri en HTTP/2 sem var líka endurbót á eldri HTTP staðli.
Allar þessar aðferðir þurfa bæði stuðning í vöfrum sem notaðir eru, en líka á miðlara ("web server"). Hvaða aðferð er í raun notuð er ekki augljóst fyrir notanda (ólíkt dulkóðuðu HTTPS; þó nota staðlarnir HTTP/2 og nýrri í reynd HTTPS). HTTPS þýðir aðeins að notuð sé örugg útgáfa af HTTP, t.d. HTTP/1.1 (eða nýrri); S-ið í lokin stendur fyrir secure, og ættu hið minnsta allir netbankar að nota það dulkóðaða afbrigði af HTTP.
Cloudflare tilkynnti HTTP/3 stuðning á sínum netþjónum (til nota fyrir viðskiptavini) og Google Chrome (í Canary útgáfunni) í september 2019.[4][5] Stuðningur er líka kominn í Firefox.