Lýðveldið Indland | |
भारत गणराज्य Bhārat Ganarājya | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Satyameva Jayate (sanskrít) Sannleikurinn einn sigrar | |
Þjóðsöngur: Jana Gana Mana | |
![]() | |
Höfuðborg | Nýja-Delí |
Opinbert tungumál | Hindí, enska og 21 annað tungumál |
Stjórnarfar | Sambandslýðveldi
|
Forseti | Droupadi Murmu |
Forsætisráðherra | Narendra Modi |
Sjálfstæði | |
• frá Bretlandi | 26. janúar 1950 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
7. sæti 3.287.263 km² 9,6 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
1. sæti 1.428.627.663 426,7/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2024 |
• Samtals | 14.594 millj. dala (2. sæti) |
• Á mann | 10.123 dalir (125. sæti) |
VÞL (2022) | ![]() |
Gjaldmiðill | Indversk rúpía |
Tímabelti | IST (UTC +5:30) |
Þjóðarlén | .in |
Landsnúmer | +91 |
Indland er land í Suður-Asíu. Það er fjölmennasta land jarðarinnar og það sjöunda stærsta að flatarmáli. Þar búa yfir 1,4 milljarðar manna (2023) eða um 17,3% jarðarbúa. Landið markast af Indlandshafi í suðri, Arabíuhafi í suðvestri og Bengalflóa í suðaustri. Indland á landamæri að Pakistan í vestri, Kína, Nepal og Bútan í norðaustri, Mjanmar og Bangladess í austri. Srí Lanka, Maldíveyjar og Indónesía eru nærliggjandi eyríki í Indlandshafi. Andaman- og Níkóbareyjar tilheyra Indlandi. Á Indlandi voru mörg af elstu siðmenningarsamfélögum heims og landið hefur getið af sér fjögur af stærstu trúarbrögðum okkar samtíma: hindúatrú, búddatrú, jainisma og síkisma. Landið var hluti af Breska heimsveldinu frá 19. öld til 1947 þegar það hlaut sjálfstæði.
Nútímamaðurinn kom til Indlandsskaga fyrir meira en 55.000 árum síðan.[1][2][3] Þessi langa saga og hlutfallsleg einangrun hópa veiðimanna og safnara hefur getið af sér mikla erfðafræðilega fjölbreytni íbúa.[4] Landbúnaður hófst vestan megin við Indusfljót fyrir um 9000 árum og á 3. árþúsundinu f.o.t. kom Indusdalsmenningin fram.[5][6] Um 1200 f.o.t. barst frumgerð sanskrít til Indlandsskaga. Safn trúarljóða sem talin eru hafa varðveist í munnlegri geymd frá þessum tíma eru tekin saman í ritinu Rigveda, en elstu þekktu handrit þess eru frá því eftir árið 1000.[7] Rigveda segir frá upphafi hindúasiðar á Indlandi. Í norður- og vesturhluta landsins tóku indóevrópsk tungumál við af dravidískum tungumálum. Um 400 f.o.t. var komin á föst stéttaskipting með erfðastéttum innan hindúasiðar. Búddatrú og jainismi boðuðu á sama tíma afnám erfðastétta. Mauryaveldið og Guptaveldið komu fram á flóðsléttu Gangesfljóts í fornöld. Þetta voru laustengd ríki þar sem listir og menning blómstruðu, en staða kvenna versnaði á sama tíma og hugmyndin um ósnertanleika varð hluti af skipulegum trúarbrögðum. Miðríkin á Suður-Indlandi áttu í miklum viðskiptum við ríki Suðaustur-Asíu og þaðan bárust trúarrit, siðir og hefðir á dravidísku.[8]
Snemma á miðöldum bárust kristni, gyðingdómur, sóróismi og íslam til norður- og vesturhéraða Indlands.[9][10][11] Herir múslima frá Mið-Asíu lögðu norðurslétturnar undir sig og stofnuðu Soldánsdæmið Delí sem var hluti af hinum íslamska menningarheimi. Á 15. öld barst hindúasiður til Suður-Indlands með Vijayanagara-veldinu. Í Púnjab hófst síkismi sem hafnaði trúarstofnunum. Eftir að Mógúlveldið var stofnað 1526 tóku við tvær aldir sem einkenndust af friði. Frá þeim tíma eru sum þekktustu dæmin um indverska byggingarlist. Breska Austur-Indíafélagið stofnaði verslunarstaði við strönd Indlands og jók smám saman yfirráðasvæði sín þar til þau náðu yfir nær allan Indlandsskaga. Eftir uppreisnina á Indlandi 1858 tók við stjórn bresku krúnunnar á Breska Indlandi. Smám saman fengu Indverjar aukin réttindi og Bretar stóðu fyrir miklum tækniframförum ásamt umbótum í menntakerfi og stjórnsýslu. Á 20. öld kom fram þjóðernissinnuð grasrótarhreyfing sem barðist fyrir sjálfstæði án ofbeldis. Hreyfingin átti stóran þátt í að binda enda á stjórn Breta. Árið 1947 var landinu skipt í tvennt: Indland þar sem meirihluti íbúa var hindúar, og Pakistan þar sem meirihluti íbúa var múslimar. Skiptingin olli mikilli þjáningu, með trúarbragðahreinsunum og þvinguðum fólksflutningum á báða bóga.[12][13]
Indland hefur verið lýðveldi frá 1950. Landið er fjölmenningarríki og þar eru töluð um 200 tungumál. Á síðustu 20 árum hefur það vaxið mikið bæði hvað varðar fólksfjölda og hnattræn áhrif. Frá 1951 til 2022 fór íbúafjöldinn úr 361 milljón í næstum 1,4 milljarða. Á sama tíma jukust tekjur á mann úr 64 dölum á ári í 2.601 dal, og læsi fór úr 16,6% í 74%. Indland er langfjölmennasta lýðræðisríki heimsins og vaxandi hernaðarveldi. Það hefur yfir að ráða kjarnorkuvopnum og einum stærsta herafla heimsins. Indland, Pakistan og Kína deila um yfirráð yfir Kasmírhéraði. Indland er með geimferðaáætlun og hefur staðið að nokkrum geimferðum. Indverskar kvikmyndir, tónlist og andleg leiðsögn hafa notið vaxandi vinsæla um allan heim.[14] Dregið hefur verulega úr fátækt, en ójöfnuður hefur vaxið að sama skapi. Meðal áskorana sem indverskt samfélag stendur frammi fyrir eru kynjamismunun, vannæring barna[15] og vaxandi loftmengun.[16] Indland er 3,3 milljón ferkílómetrar að stærð og er eitt af löndum heims með mesta líffjölbreytni.[17] Skógar þekja 21,7% landsins. Á Indlandi voru árið 2023 106 þjóðgarðar sem þekja um 44 þúsund ferkílómetra, eða um 1,35% landsins.[18]