Jan Mayen er norsk eldvirk eyja í Norður-Íshafi, um 550 km norðaustur af Íslandi. Eyjan er um 380 km² að flatarmáli, 53,6 km löng, með strandlengju upp á 124 km og breidd hennar er á bilinu 2,5 – 15,8 km. Jan Mayen teygir sig frá suðvestri til norðausturs og á norðausturhluta eyjarinnar er hið risavaxna eldfjall Beerenberg sem er 2277 m hátt. Jan Mayen teygir sig frá 70°50'N og 9°03'W í suðri til 71°10'N og 7°57'W í norður.
Eyjan er á heitum reit og hafa eldgos verið tíð í Beerenberg síðustu aldir, það síðasta árið 1985. Þar áður urðu eldgos árin 1973 og 1970. Allt voru þetta tiltölulega lítil sprungugos í hlíðum fjallsins. Sögulegar heimildir eru til um gos árin 1732, 1818 og 1851.
Aðeins einn bær er á eynni, Olonkinbyen og búa þar 18 íbúar. Eyjunni er stjórnað af norska fylkinu Nordland.