Kanada | |
Canada | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: A Mari Usque Ad Mare (latína) Frá hafi til hafs | |
Þjóðsöngur: O Canada | |
Höfuðborg | Ottawa |
Opinbert tungumál | enska og franska |
Stjórnarfar | Sambandsríki með þingbundna konungsstjórn
|
Konungur | Karl 3. |
Forsætisráðherra | Justin Trudeau |
Landstjóri | Mary Simon |
Sjálfstæði | frá Bretlandi |
• Bresku Norður-Ameríkulögin | 1. júlí 1867 |
• Westminsterlögin | 11. desember 1931 |
• Kanadalögin | 17. apríl 1982 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
2. sæti 9.984.670 km² 11,76 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
37. sæti 40.000.000 3,5/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 1.979 millj. dala (15. sæti) |
• Á mann | 51.713 dalir (20. sæti) |
VÞL (2019) | 0.929 (16. sæti) |
Gjaldmiðill | dalur |
Tímabelti | UTC−3,5 til −8 |
Þjóðarlén | .ca |
Landsnúmer | ++1 |
Kanada er annað stærsta land í heimi að flatarmáli (aðeins Rússland er stærra) og nær yfir nyrðri hluta Norður-Ameríku, frá Kyrrahafi í vestri til Atlantshafs í austri og að Norður-Íshafinu í norðri. Í suðri og vestri á Kanada 8.891 km löng landamæri að Bandaríkjunum sem eru lengstu landamæri tveggja landa í heiminum. Kanada er sambandsríki, sem tíu fylki og þrjú sjálfstjórnarsvæði mynda. Ottawa er höfuðborg Kanada, en stærstu þéttbýli landsins eru í kringum Toronto, Montreal og Vancouver.
Ýmsar frumbyggjaþjóðir hafa búið þar sem Kanada er nú í þúsundir ára. Á 16. öld hófu Bretar og Frakkar landkönnun og síðar landnám á austurströndinni. Eftir fjölmargar styrjaldir gaf Frakkland eftir nær allar nýlendur sínar í Norður-Ameríku árið 1763. Kanada var stofnað með Bresku Norður-Ameríkulögunum frá 1867 þegar þrjár nýlendur í Bresku Norður-Ameríku voru sameinaðar sem Sjálfstjórnarsvæðið Kanada. Eftir þetta hófust breytingar og skiptingar landsvæða undir breskri stjórn jafnframt þróun í átt til aukins sjálfstæðis. Aukið sjálfræði varð til þegar Westminster-lögin 1931 voru samþykkt og landið varð að fullu sjálfstætt með Kanadalögunum 1982 þar sem síðustu leifunum af yfirráðum breska þingsins var eytt úr Stjórnarskrá Kanada.
Í Kanada er þingræði og þingbundin konungsstjórn. Stjórnkerfi landsins byggist á Westminster-kerfinu. Forsætisráðherra Kanada er stjórnarleiðtogi en Bretakonungur, Karl 3., er þjóðhöfðingi landsins. Kanada er samveldisland og tvö alríkistungumál, enska og franska, eru í landinu. Landið situr hátt á listum yfir gagnsæi, borgaraleg réttindi, lífsgæði, viðskiptafrelsi og menntun. Það er fjölmenningarsamfélag sem varð til við aðflutning fólks frá mörgum löndum. Samband Kanada við Bandaríkin hefur haft mikil áhrif á efnahag þess og menningu.
Kanada er þróað ríki sem er í 20. sæti lista yfir lönd eftir vergri landsframleiðslu á mann og 16. sæti á vísitölu um þróun lífsgæða. Hagkerfi landsins er það tíunda stærsta í heimi og byggist aðallega á ríkulegum náttúruauðlindum og víðtækum alþjóðlegum viðskiptatengslum. Kanada á aðild að fjölmörgum alþjóðastofnunum og samtökum eins og Sameinuðu þjóðunum, NATO, Sjö helstu iðnríkjum heims, Tíu helstu iðnríkjum heims, G20, USMCA, Breska samveldinu, Samtökum frönskumælandi ríkja, Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna og Samtökum Ameríkuríkja.