Kyrrahaf er stærsta og dýpsta úthaf jarðar. Það nær yfir um 46% af vatnshvolfi jarðar og 32% af heildaryfirborði hnattarins. Það er 165.250.000 að stærð ef miðað er við strönd Suðurskautslandsins og er því stærra en allt þurrlendi jarðarinnar samanlagt. Það afmarkast í stórum dráttum af Norður-, Mið- og Suður-Ameríku að austan; meginlandi Asíu, Japan og Indónesíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu að vestan. Það nær frá Beringssundi í norðri að Suðurskautslandinu í suðri (eða að 60° suður ef miðað er við mörk Suður-Íshafsins).
Meðaldýpt Kyrrahafsins er um 4.000 metrar.[1] Mesta dýpi í heimi er í Maríanadjúpálnum í Norðvestur-Kyrrahafi, 10.928 metrar.[2] Í Kyrrahafinu er líka dýpsti punktur suðurhvels jarðar í Tongadjúpálnum, 10.823 metrar á dýpt.[3] Þriðji dýpsti punktur jarðar, Sírenudjúpið, er líka í Kyrrahafinu.
Mörg randhöf eru í Kyrrahafinu, eins og Suður-Kínahaf, Austur-Kínahaf, Japanshaf, Okotskhaf, Filippseyjahaf, Kóralhaf, Jövuhaf og Tasmanhaf.
Í Kyrrahafinu er gífurlegur fjöldi eyja, sem flestar eru smáar. Margar þeirra eru byggðar mönnum, en þó munu fleiri vera óbyggðar. Eftir Kyrrahafinu nokkurn veginn miðju liggur daglínan í dálitlum hlykkjum frá norðri til suðurs.