Lykt er heiti á skynjun með þeffærum (lyktarskynfærum). Lyktin kemur til vegna rokgjarnra efnasambanda, sem breiðast út í andrúmsloftinu, oftast mjög útþynnt, og sem lyktarskyn dýrs nemur að mismiklu leyti. Þeffæri flestra dýra, þ.á m. mannsins, eru í nefi. Margar jurtir og ávextir gefa frá sér lykt og flestir hlutir í náttúrunni og hinum manngerða heimi hafa einhvers konar lykt. Dýr nota lyktardreifingu til samskipta öllu meira en maðurinn, en þó er sannað að undirliggjandi viðtakar séu í huga mannsins sem vinna úr lykt til samskipta, sbr. til dæmis samskipti kynjanna.