Orkneyjar eru eyjaklasi 16 km norðan við Katanes, sem er hérað á norðurodda Skotlands. Orkneyjar eru um 70 talsins, en aðeins 20 þeirra eru í byggð. Stærsta eyjan er Meginland (Mainland), einnig nefnd Hrossey og höfuðstaðurinn þar og stærsti bær eyjanna er Kirkjuvogur (Kirkwall). Þar búa 7000 manns. Í Kirkjuvogi er dómkirkja Magnúsar helga. Auk Kirkjuvogs er eini eiginlegi bærinn Straumnes við vesturenda Meginlands, en þar búa 2000 manns.