Pyrrhonismi er forngrísk efahyggja sem er nefnd í höfuðið á Pyrrhoni frá Elís en á ekki síður rætur að rekja til akademískrar efahyggju, einkum heimspeki Arkesilásar. Upphafsmaður pyrrhonismans var Ænesidemos (uppi á 1. öld f.Kr.) sem hóf feril sinn innan Akademíunnar en fékk sig fullsaddan af þeirri kredduspeki sem hann taldi einkenna akademíska heimspeki á sínum tíma og setti fram róttækari efahyggju sem hann kenndi við Pyrrhon. Rit Ænesidemosar eru ekki varðveitt en varðveittur er útdráttur úr ritum hans. Meginheimildin fyrir þessari heimspeki er hins vegar rit Sextosar Empeirikosar (uppi seint á 2. öld e.Kr.).