Sannleikur eða sannleiki er heimspekilegt hugtak, sem gegnir mikilvægu hlutverki í málspeki og þekkingarfræði, en er auk þess hluti af hversdagslegum orðaforða okkar og er eitt mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir.[1]
Þegar einhver er sammála fullyrðingu, segir hann að hún sé „sönn“. Þekkingarfræði, sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar, leitar lausna á fjölmörgum heimspekilegum gátum um „sannleika“ en auk þess er sannleikshugtakið gríðarlega mikilvægt í málspeki og er nátengt merkingarhugtakinu.
Fyrsti vandi heimspekingsins er að ákveða hvers konar hlutir geti verið sannir eða ósannir, það er að segja að finna svonefnda sannbera.[2] Í húfi er orðaforðinn, sem við notum til að fjalla um sannleikann. Síðan eru til fjölmargar kenningar um hvað geri sannberana sanna. Sumar kenningar, „þéttar“ kenningar, fara með sannleika líkt og eiginleika sem einkenna sannberana.[3] Aðrar kenningar, sem teljast til úrdráttarhyggjunnar, leggja til að sannleikur sé lítið annað en hagnýtt tól í tungumáli okkar en standi ekki fyrir neinn eiginleika sem sannberar geta haft.[4] Þessar kenningar eru undir áhrifum frá nýjungum í formlegri rökfræði sem hafa varpað ljósi á hvernig sannleikur virkar bæði í formlegum kerfum og náttúrulegum tungumálum.[5] Óháðar þessum vandamálum eru gátur um hvernig við vitum að eitthvað sé satt.[6] Maður virðist vita að maður finni fyrir tannpínu á annan hátt en maður veit að jörðin sé þriðja reikistjarnan frá sólu. Ef til vill er önnur þekkingin huglæg og fengin með innskoðun en hin hlutlæg og fengin með athugunum eða gildum ályktunum. Á sama hátt virðist sannleikur stundum velta á viðhorfi manns og bakgrunni en stundum vera algildur og óháður afstöðu manns. Heimspekingar hafa afar mismunandi hugmyndir um öll þau atriði sem hér hafa verið nefnd.