47°30′00″N 19°03′00″A / 47.50000°N 19.05000°A
Ungverjaland | |
Magyarország | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Himnusz | |
![]() | |
Höfuðborg | Búdapest |
Opinbert tungumál | ungverska |
Stjórnarfar | þingbundið Lýðveldi
|
Forseti | Tamás Sulyok |
Forsætisráðherra | Viktor Orbán |
Stofnun | |
• Ungverska konungdæmið | Desember 1000 |
Evrópusambandsaðild | 1. maí 2004 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
108. sæti 93.030 km² 0,74 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
91. sæti 9.730.000[1] 105/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 316,342 [2] millj. dala (53. sæti) |
• Á mann | 32.434 dalir (41. sæti) |
VÞL (2019) | ![]() |
Gjaldmiðill | Ungversk fórinta (Ft) (HUF) |
Tímabelti | UTC+1 (UTC+2 á sumrin) |
Þjóðarlén | .hu |
Landsnúmer | +36 |
Ungverjaland (ungverska: Magyarország) er landlukt land í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þús km2 að stærð og á landamæri að Slóvakíu í norðri, Úkraínu í norðaustri, Rúmeníu í austri og suðaustri, Serbíu í suðri, Króatíu og Slóveníu í suðvestri og Austurríki í vestri. Íbúar eru 10 milljónir og teljast flestir til Ungverja, en þar býr líka stór minnihlutahópur Rómafólks. Ungverska er opinbert tungumál í landinu. Það er stærsta úralska málið og eitt af fáum Evrópumálum sem ekki tilheyrir indóevrópsku málaættinni.[3] Höfuðborg landsins og stærsta borgin er Búdapest, en aðrar stórar borgir eru meðal annars Debrecen, Szeged, Miskolc, Pécs og Győr.
Ýmsar þjóðir hafa byggt landið sem í dag er Ungverjaland, þar á meðal Keltar, Rómverjar, Germanar, Húnar, Vestur-Slavar og Avarar. Fyrsta ungverska ríkið var stofnað seint á 9. öld þegar Ungverjar lögðu karpatísku sléttuna undir sig undir stjórn Árpáds.[4][5] Barnabarn hans, Stefán 1., gerði landið að kristnu konungsríki. Á 12. öld var Ungverjaland orðið að öflugu ríki sem náði hátindi sínum á 15. öld.[6] Eftir orrustuna við Mohács árið 1526 var landið að hluta hernumið af Tyrkjaveldi (1541-1699). Í upphafi 18. aldar varð Ungverjaland hluti af ríki Habsborgara og seinna hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu sem var stórveldi í Evrópu fram á 20. öld.[7]
Austurríki-Ungverjaland leystist upp eftir fyrri heimsstyrjöld og núverandi landamæri Ungverjalands voru staðfest með Trianon-samningnum, sem leiddi til missis 71% af landsvæðinu og 58% af íbúunum.[8][9][10] Eftir róstusöm millistríðsár gerðist Ungverjaland bandamaður Öxulveldanna í síðari heimsstyrjöld þar sem mannfall og eyðilegging varð mikil.[11][12] Eftir stríð var Ungverjaland á áhrifasvæði Sovétríkjanna sem leiddi til stofnunar Alþýðulýðveldisins Ungverjalands. Eftir uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956 réðust Sovétríkin inn í landið og komið var á kommúnistastjórn sem var eilítið frjálslegri en í öðrum ríkjum Austurblokkarinnar. Niðurrif landamæragirðinga í Ungverjalandi 1989 flýtti fyrir hruni Austurblokkarinnar og upplausn Sovétríkjanna.[13] Þann 23. október 1989 var lýðræði endurreist í landinu.[14] Ungverjaland gerðist aðili að Evrópusambandinu árið 2004 og hefur verið hluti af Schengen-svæðinu frá 2007.[15]
Á alþjóðavettvangi telst Ungverjaland til miðvelda, aðallega vegna menningarlegra og efnahagslegra áhrifa landsins í sínum heimshluta.[16] Landið er hátekjuland sem situr hátt á vísitölu um þróun lífsgæða, með ókeypis heilbrigðisþjónustu og framhaldsmenntun.[17][18] Ungverjaland á sér langa afrekasögu í myndlist, tónlist, bókmenntum, íþróttum, vísindum og tækni.[19][20][21] Landið er vinsæll áfangastaður ferðamanna með tæplega 25 ferðamenn árið 2019.[22] Landið var fyrsta austurevrópska ríkið sem gekk í NATO í mars 1999. Þann 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Landið á aðild að fjölda alþjóðastofnana eins og Evrópuráðinu, Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Heimsbankanum, Alþjóðafjárfestingabankanum, Innviðafjárfestingabanka Asíu og Visegrád-hópnum.[23]