Vatn | ||
---|---|---|
![]() | ||
Vatnssameind | ||
Auðkenni | ||
CAS-númer | 7732-18-5 | |
Eiginleikar | ||
Formúla | H2O | |
Útlit | Glær vökvi | |
Eðlismassi | 1,0 · 103 kg/m³ | |
Bræðslumark | 0 °C | |
Suðumark | 100 °C |
Vatn er ólífrænn lyktar-, bragð- og nær litlaus vökvi sem er lífsnauðsynlegur öllum þekktum lífverum, þrátt fyrir að gefa þeim hvorki fæðu, orku né næringarefni.[1] Vatnssameindin er samsett úr tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind sem tengjast með samgildistengi og hefur efnaformúluna H2O. Vatn er uppistaðan í vatnshvolfi jarðar. Orðið „vatn“ á við um efnið eins og það kemur fyrir við staðalhita og staðalþrýsting.
Í náttúrunni kemur vatn fyrir í nokkrum ólíkum efnafösum. Þar sem hiti og þrýstingur á yfirborði Jarðarinnar er tiltölulega nálægt þrípunkti vatns, kemur það fyrir sem fast efni, vökvi og gas. Það myndar úrkomu sem rigning og vatnsúða í þoku. Ský eru úr svífandi vatnsdropum og ískornum. Kristallaður ís getur fallið til jarðar sem snjór. Sem gas kemur vatn fyrir sem vatnsgufa.
Það eru 1,4 milljarðar km³ vatns á jörðinni sem þekja 71% af yfirborði hennar, aðallega í höfunum (um 96,5%).[2] Lítið af vatni er að finna í grunnvatni (1,7%), bundið í jöklum og ísbreiðum við Grænland og Suðurskautslandið (1,7%), og sem ský og úrkoma (0,001%).[3][4] Vatnið er á stöðugri hreyfingu í hringrás vatns með uppgufun, útgufun, rakaþéttingu, úrkomu og afrennsli.
Vatn leikur stórt hlutverk í heimshagkerfinu. Um það bil 70% af ferskvatni sem menn nota fara til landbúnaðar.[5] Fiskveiðar í sjó og ferskvatni eru mikilvæg uppspretta fæðu í mörgum heimshlutum og gefa af sér 6,5% af prótínframleiðslu heimsins.[6] Megnið af heimsviðskiptum með vörur eins og olíu, jarðgas og iðnaðarframleiðslu, er flutt á sjó, vötnum og skipaskurðum. Mikið af vatni, ís og gufu er notað í kæli- og hitabúnað í iðnaði og á heimilum. Vatn er gott leysiefni fyrir margs konar efni, bæði steinefni og lífræn efni, og er notað í iðnaðarvinnslu, í eldamennsku og þvotta. Vatn, ís og snjór eru líka undirstaða afþreyingar og íþrótta, eins og sunds, siglinga, brimbrettaiðkunar, stangveiði, skautahlaups og skíða.