Vespurnar (á forngrísku: Σφήκες (Sfēkes); á latínu: Vespae) er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það vann til annarra verðlauna á Lenajuhátíðinni árið 422 f.Kr. Í grunninn er leikritið ádeila á réttarkerfi Aþeninga og á lýðskrumarann Kleon sem var áhrifamikill stjórnmálamaður í Aþenu á ritunartíma leikritsins. Kleon þessi var æsingamaður sem sótti fylgi með því að ala á ótta, beita ofbeldi og mútum og notfærði sér svo valdastöðu sína til eiginhagsmuna. Auk þess sýnir Aristófanes hversu gallað réttarkerfið í Aþenu var á þessum tíma. Lítið var greitt fyrir að taka þátt í kviðdómi svo það kom oftar en ekki fyrir að þeir sem gegndu störfum kviðdómenda voru einsleitur hópur roskinna manna sem hættir voru að vinna og er kór leikritsins hópur slíkra manna. Sakborningar fengu því ósanngjörn málagjöld því fjölbreytileiki kviðdómara var enginn, heldur stóð dómarahópurinn af refsiglöðum gamlingjum og lá galli kerfisins fyrst og fremst í því, að mati Aristófanesar.