England

England
Fáni Englands Skjaldarmerki Englands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Dieu et mon droit (franska)
Guð og réttur minn
Þjóðsöngur:
God Save the King
Staðsetning Englands
Höfuðborg London
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Forsætisráðherra Keir Starmer
Sameining
 • Stofnun 12. júlí 927 
 • Sameining við Skotland 1. maí 1707 
Flatarmál
 • Samtals

130.279 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar

56.286.961
432/km²
Gjaldmiðill Sterlingspund (£)
Tímabelti UTC (+1 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer +44

England (borið fram /ˈɪŋglənd/ á ensku) er land sem er hluti af Bretlandi. Íbúar Englands eru yfir 83% af íbúum Bretlands. England á landamæri að Skotlandi í norðri, Wales í vestri og strönd við Norðursjó, Írlandshaf, Keltahaf, Bristol-sund og Ermarsund. Landið nær yfir 5/8 hluta af Stóra-Bretlandi auk yfir 100 minni eyja, þar á meðal Scilly-eyjar og Wight-eyju.

Menn settust að á Englandi á síðfornsteinöld, en nafnið er fengið frá Englum, germönskum ættflokki sem settist þar að á 5. og 6. öld og drógu nafn sitt af skaganum Angeln í Norður-Þýskalandi. England var sameinað í eitt ríki á 10. öld og hefur haft mikil menningarleg og efnahagsleg áhrif um víða veröld síðan á landafundatímabilinu sem hófst á 15. öld.[1]

Ensk tunga, ensk lög og enska biskupakirkjan hafa orðið undirstaða réttarkerfis margra landa og enskt þingræði hefur verið tekið upp víða.[2] Iðnbyltingin hófst á Englandi seint á 18. öld og England varð fyrsta iðvædda samfélag heims.[3] Á Englandi eru tveir elstu háskólar hins enskumælandi heims: Oxford-háskóli (stofnaður 1096) og Cambridge-háskóli (stofnaður 1209), sem teljast báðir með fremstu háskólum heims.[4]

Konungsríkið England innlimaði Wales árið 1535 en hætti að vera til sem sjálfstætt ríki árið 1707 þegar það sameinaðist Skotlandi með bresku sambandslögunum þegar sameinaða konungsríkið Bretland var stofnað.[5] Árið 1801 sameinaðist þetta ríki Írlandi með nýjum sambandslögum og til varð sameinað konungsríki Bretlands og Írlands. Árið 1922 sagði Írska fríríkið sig frá þessu ríki og eftir stóð þá sameinað konungsríki Bretlands og Norður-Írlands.[6]

Landslag á Englandi er að mestu flatt með lágum hæðadrögum, aðallega í Midlands og Suður-Englandi. Flest fjöllin eru í norðurhlutanum, í Lake District og Pennínafjöllum, en líka í vestri í Dartmoor og Shropshire Hills. Höfuðborg landsins er London sem er stærsta þéttbýli Bretlands með 14,2 milljón íbúa árið 2021. Íbúar Englands eru 56,3 milljónir, eða 84% af íbúum Bretlands.[7] Langflestir búa í og við London, í Suðaustur-Englandi og borgum í Midlands, Norðvestur-Englandi og Yorkshire þar sem stórar iðnaðarborgir byggðust upp á 19. öld.[8]

  1. „England – Culture“. britainusa.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. maí 2008. Sótt 1. febrúar 2009.
  2. „Country profile: United Kingdom“. BBC News. news.bbc.co.uk. 26. október 2009. Sótt 1. febrúar 2009.
  3. „Industrial Revolution“. Ace.mmu.ac.uk. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2008. Sótt 1. febrúar 2009.
  4. "2022-2023 Best Global Universities Rankings", U.S. News & World Report
  5. Burns, William E. A Brief History of Great Britain. bls. xxi.; „Acts of Union 1707“. parliament.uk. Sótt 27. janúar 2011.
  6. Phelan, Kate (4. október 2016). „The Partition Of Ireland: A Short History“. Culture Trip. Sótt 20. maí 2019.
  7. Park, Neil (24. júní 2020). „Population estimates for UK, England and Wales, Scotland and Northern Ireland“. www.ons.gov.uk. Office for National Statistics (United Kingdom).
  8. 2011 Census – Population and household estimates for England and Wales, March 2011. Accessed 31 May 2013.

England

Dodaje.pl - Ogłoszenia lokalne