Gluggakerfi eða gluggaumhverfi er hluti myndræns viðmóts, sérstaklega í skjáborðsumhverfi, sem styður við útfærslu gluggastjóra og myndar grunnstuðning við annan vélbúnað á borð við skjákort, mýs, teiknibretti og lyklaborð. Í sumum tilvikum eru gluggakerfin samfelldur hluti af stýrikerfinu og ekki skýr greinarmunur á því og öðrum stýrikerfishlutum. Dæmi um slíka samfellu er í Windows Vista þar sem gluggakerfið er innifalið í gluggastjóranum Desktop Window Manager. Dæmi um aðskilið gluggakerfi er Quartz Compositor í Mac OS X og X-gluggakerfið.