Kartafla

Kartafla

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Undirflokkur: Asteridae
Ættbálkur: Kartöflubálkur (Solanales)
Ætt: Náttskuggaætt (Solanaceae)
Ættkvísl: Náttskuggar (Solanum)
Tegund:
Kartafla

Tvínefni
Solanum tuberosum
L.

Kartafla (fræðiheiti: Solanum tuberosum) er fjölær jurt af náttskuggaætt sem er mikið ræktuð fyrir sterkjurík hnýði á neðanjarðarrenglum. Kartöflur eru í fjórða sæti yfir mest ræktuðu ferskvöru heims (á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís).

Kartöflur eru upprunnar í Andesfjöllum, nánar tiltekið í suðurhluta Perú rétt norðan við Titikakavatn samkvæmt nýlegri rannsókn.[1] Frá Suður-Ameríku barst kartaflan til Evrópu með spænskum og portúgölskum landvinningamönnum á síðari hluta 16. aldar. Elstu heimildir um kartöflurækt í Gamla heiminum eru frá Kanaríeyjum árið 1567.[2] Kartaflan náði sér þó ekki á strik sem undirstöðufæða í Evrópu fyrr en um tvö hundruð árum síðar og þá sem svar við harðindum sem ollu uppskerubresti í hinni hefðbundnu kornrækt. Kartöfluræktin í Evrópu byggðist á fáum afbrigðum og var því veik fyrir sjúkdómum eins og kartöflumyglu sem olli uppskerubresti á mörgum stöðum í Evrópu á fimmta áratug 19. aldar. Kartöflurækt hófst á Írlandi árið 1589 að undirlagi sir Walter Raleigh.

Kartaflan er undirstöðuhráefni í evrópskri matargerð og Evrópubúar og Bandaríkjamenn eru enn mestu kartöfluneytendurnir en síðustu áratugi hefur kartöfluræktun farið ört vaxandi í Asíu. Kína er nú stærsti kartöfluframleiðandinn á heimsvísu með um fimmtung heimsframleiðslunnar.[3] Kartöflur eru í fimmta sæti yfir mest ræktuðu nytjaplöntur í heiminum.[4][5]

Árið 2008 var ár kartöflunnar, en á hverju ári tileinka Sameinuðu þjóðirnar árið einhverju málefni sem varðar heill mannkyns. Ástæðan fyrir valinu er sú að kartaflan er talin geta hjálpað til að ná einu af átta þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem er að fækka þeim um helming sem líða skort og hungur vegna fátæktar fyrir árið 2015.[6]

  1. „Origin of the potato centered in Peru...“. International Potato Center. Sótt 1. janúar 2008.
  2. Domingo Ríos; og fleiri (31. maí 2007). „What Is the Origin of the European Potato? Evidence from Canary Island Landraces“ (pdf). Crop Science, vol. 47. Sótt 2. janúar 2008.
  3. „Potato World: Consumption and Production“. International Year of the Potato 2008. Sótt 2. janúar 2008.
  4. „List of most valuable crops and livestock products“, Wikipedia (enska), 25. mars 2021, sótt 8 febrúar 2022
  5. „The Top 5 Crops Produced in the World“. top5ofanything.com. Sótt 8 febrúar 2022.
  6. „IYP Concept“. International Year of the Potato 2008. Sótt 2. janúar 2008.

Kartafla

Dodaje.pl - Ogłoszenia lokalne