London
Lundúnir | |
---|---|
Viðurnefni: The Great Smoke, The Global Village, LDN | |
Hnit: 51°30′26″N 0°7′39″V / 51.50722°N 0.12750°V | |
Ríki | Bretland |
Land | England |
Sýsla | Stór-Lundúnasvæðið |
Stofnun | 50 e.Kr. sem Londinium |
Undirskiptingar | Lundúnaborg og 32 borgarhlutar |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri | Sadiq Khan (L) |
Flatarmál | |
• Heild | 1.572,03 km2 |
• Þéttbýli | 1.737,9 km2 |
• Stórborgarsvæði | 8.382 km2 |
• Lundúnaborg | 2,89 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 11 m |
Mannfjöldi (2021) | |
• Heild | 8.799.800[1] |
• Þéttleiki | 5.598/km2 |
• Þéttbýli | 9.787.426 |
• Stórborgarsvæði | 14.800.000 |
• Lundúnaborg | 8.600[1] |
Tímabelti | UTC+00:00 (GMT) |
• Sumartími | UTC+01:00 (BST) |
Vefsíða | www |
London (eða Lundúnir á íslensku) er höfuðborg Englands og Bretlands. London er þriðja fjölmennasta borg Evrópu á eftir Moskvu og Istanbúl. Í London búa um 8,8 milljónir (2021). Allt að 14,8 milljónir manna búa á stórborgarsvæði London (2023) sem er það fjölmennasta í Vestur-Evrópu. Borgin stendur við endann á 80 km löngum árósum á bökkum árinnar Thames í suðausturhluta Englands á Stóra-Bretlandi. Þar hefur verið byggð í meira en tvö þúsund ár. Lundúnaborg er heiti á hinni fornu miðborg London þar sem nú er miðja fjármálahverfisins. Lundúnaborg var stofnuð af Rómverjum í kringum árið 50 og fékk nafnið Londinium. Ríkisstjórn og þing Bretlands (og áður Englands) hefur um aldir verið í Westminster, vestan við Lundúnaborg. Frá 19. öld hefur heitið „London“ vísað til stórborgarsvæðisins sem óx í kringum þessa tvo borgarkjarna og skiptist sögulega milli fimm sýslna: Middlesex, Essex, Surrey, Kent og Hertfordshire.
London er heimsborg í þeim skilningi að hún er ein af helstu viðskipta-, stjórnmála- og menningarborgum heimsins og hefur verið um árabil.[5][6][7] Borgin hefur mjög mikil áhrif á heimsvísu og er þekkt fyrir fjármálastarfsemi, næturlíf, tísku og listir, menntun, heilsugæslu, vísindi, tækni, samgöngur, fjölmiðlun og ferðaþjónustu.[8][9] London er ein af stærstu fjármálamiðstöðvum heims og öflugasta efnahagslega miðstöð Evrópu.[10] Í London er hlutfallslega mestur fjöldi menntastofnana á háskólastigi[11] og þar eru nokkrir af hæst metnu skólum heims, eins og Imperial College London og University College London.[12][13][14][15] London er sú borg í Evrópu sem flestir ferðast um og hefur fjölsóttasta safn flugvalla í heimi.[16] Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar er elsta neðanjarðarlestakerfi heims.[17]
Í London er sannkallað fjölmenningarsamfélag: yfir 300 mismunandi tungumál eru töluð þar.[18][19] Rétt innan við 10 milljónir búa innan marka Stór-Lundúnasvæðisins sem gerir borgina þá þriðju stærstu í Evrópu miðað við íbúa innan borgarmarka.[20] Í borginni búa 13,4% íbúa Bretlands og 16% íbúa Englands.[21] Samkvæmt Eurostat var London með stærsta stórborgarsvæði (samanlögð samfelld byggð og atvinnusóknarsvæði) Evrópusambandsins fyrir útgöngu Breta árið 2019.[22]
Fjórir staðir í London eru á heimsminjaskrá UNESCO: Lundúnaturn, söguleg byggð í Greenwich, Konunglegi grasagarðurinn og svæðið umhverfis Westminsterhöll, Westminster Abbey og kirkja heilagrar Margrétar. Konunglega stjörnuathugunarstöðin í Greenwich er sá staður sem núllbaugur jarðar miðast við og staðaltími Greenwich.[23] Í borginni eru margir frægir ferðamannastaðir eins og Buckingham-höll, London Eye, Piccadilly Circus, Dómkirkja heilags Páls, Tower-brúin og Trafalgar-torg. Í London eru mörg söfn, gallerí, bókasöfn og menningarmiðstöðvar eins og Þjóðminjasafn Bretlands, Listasafn Bretlands, Náttúrugripasafnið í London, Tate Modern, Þjóðbókasafn Bretlands og fjölmörg leikhús í West End.[24] Stórir íþróttaviðburðir sem fara reglulega fram í London eru meðal annars úrslitaleikur enska bikarsins, Wimbledon-mótið í tennis og Lundúnamaraþonið. Árið 2012 varð London fyrsta borgin sem hélt sumarólympíuleikana í þriðja sinn.[25]
Tilvísunar villa: <ref>
tag er til fyrir hóp tilvísana undir nafninu "lower-alpha". Ekkert sambærilegt <references group="lower-alpha"/>
tag fannst.