Mary Wollstonecraft (27. apríl 1759 – 10. september 1797) var breskur rithöfundur, kvenréttindafrömuður og heimspekingur. Hún var gift rithöfundinum og fríþenkjaranum William Godwin og átti með honum dóttirina Mary Wollstonecraft Godwin sem síðar varð Mary Shelley þegar hún giftist skáldinu Percy Bysshe Shelley. Wollstonecraft var þeirrar skoðunar (sem þá var alls ekki almenn) að konur hefðu jafna skynsemi á við menn og ættu þar með að njóta sömu réttinda.
Í dag er Mary Wollstonecraft þekkt sem ein stofnenda femínískrar heimspeki og er oft vitnað í bæði líf hennar og verk í fræðinni. Á stutta ferli hennar skrifaði hún bækur, greinar, ferðabækur, sögubók um frönsku byltinguna og eina barnabók. Þekktasta verk Mary Wollstonecraft er Til varnar réttindum konunnar (A Vindication of the Rights of Woman) þar sem hún fjallar um að ástæður þess að konur virðist óæðri körlum séu í raun skortur á menntun og bendir því á nauðsyn þess að drengir og stúlkur hljóti sömu menntun. Bókin átti að vera andsvar við Émile eftir Jean-Jacques Rousseau.
Eftir að Wollstonecraft féll frá birti ekkill hennar minnissögu um líf hennar sem upplýsti um óhefðbundin lífsstíl hennar og um leið eyðilagði orðstír hennar og varði það í næstum heila öld. Hinsvegar, þegar femíníska byltingin við aldamótin 1900 hófst fóru skoðanir og barátta Wollstonecraft fyrir réttindum kvenna og gagnrýni á hefðbundna "kvenmennsku" að verða æ mikilvægari í umræðunni
Wollstonecraft lést aðeins ellefu dögum eftir að hafa fætt seinni dóttur sína, Mary Shelley, sem seinna varð heimsfræg fyrir bækur sínar og sérstaklega fyrir bók sína Frankenstein sem er gjarnan talin hafa verið sú fyrsta í flokki vísindaskáldsagna.