Matur er hvert það efni sem menn borða og drekka sér til næringar og ánægju. Það sem önnur dýr éta er hins vegar kallað fæða eða fóður. Efnafræðilega er uppistaðan í flestum mat vatn, kolvetni, fita og prótín. Flest af því sem fólk hefur til matar eru afurðir jurta eða dýra, þótt til sé matur unninn úr sveppum; til dæmis áfengi sem er afurð gersvepps. Elsta aðferðin við öflun matvæla er með veiðum og söfnun. Í dag nota þó flest mannleg samfélög fjölda aðferða, svo sem landbúnað, eldi og fiskveiðar, og þótt veiðar og tínsla þekkist meðfram þá eru þessar aðferðir ekki uppistaðan í matvælaöflun nútímasamfélaga.
Menningarsamfélög eiga sér yfirleitt greinilega matarhefð, safn hefðbundinna matreiðsluaðferða, geymsluaðferða og matarsmekk sem er rannsóknarefni matreiðslufræði. Mörg samfélög búa við gríðarlega fjölbreytni í mat, bæði hvað varðar framleiðslu, vinnslu og matreiðslu. Þessi fjölbreytni stafar meðal annars af virkum matvælamarkaði sem er meginuppistaða útflutnings í mörgum löndum.
Í mörgum samfélögum eru stundaðar rannsóknir á matarvenjum. Þótt menn séu alætur, þá hafa trúarbrögð og önnur félagsleg atriði, eins og t.d. siðferði, mikil áhrif á það hvaða matar er neytt. Áhyggjur af mataröryggi stafa meðal annars af matareitrunum sem valda mörgum dauðsföllum árlega. Einnig eru matarvenjur rannsakaðar út frá hollustu og hættunni á lífstílssjúkdómum.
Margar fræðigreinar fást við rannsóknir á mat. Nokkrar þær helstu eru næringarfræði, matvælafræði og matreiðslufræði.