Moskva
Москва (rússneska) | |
---|---|
Hnit: 55°45′21″N 37°37′2″A / 55.75583°N 37.61722°A | |
Land | Rússland |
Fylki | Moskvufylki |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri[1] | Sergej Sobjanín[1] (SR) |
Flatarmál | |
• Heild | 2.561,5 km2 |
• Þéttbýli | 6.154 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 156 m |
Mannfjöldi (2021)[3] | |
• Heild | 13.010.112 |
• Þéttleiki | 5.080/km2 |
• Dreifbýli | 18.800.000 |
• Stórborgarsvæði | 21.534.777 |
Tímabelti | UTC+03:00 (MSK[4]) |
ISO 3166 kóði | RU-MOW |
Skráningarmerki | 77, 177, 777; 97, 197, 797; 99, 199, 799, 977[5] |
Vefsíða | mos.ru |
Moskva (rússneska: Москва) er höfuðborg og fjölmennasta borg Rússlands. Borgin stendur við Moskvuá sem rennur út í Okafljót sem aftur rennur í Volgu, en Moskvuskurðurinn norðan við borgina tengir ána líka beint við Volgu. Borgin er með 12,4 milljón íbúa innan borgarmarkanna,[6] yfir 17 milljónir íbúa á þéttbýlissvæðinu[7] og yfir 20 milljón íbúa á stórborgarsvæðinu.[8] Borgin nær yfir 2.511 km2 svæði, en stórborgarsvæðið er yfir 26.000 km2 að stærð. Moskva er með stærstu borgum heims og fjölmennasta borg Evrópu. Hún er líka með fjölmennasta þéttbýlissvæði og stórborgarsvæði í Evrópu,[7][8] auk þess að vera stærsta borg Evrópu að flatarmáli.[9]
Fyrst er getið um borgina í sögulegum heimildum árið 1147, þá sem hluta af furstadæminu Suzdal. Borgin dregur heiti sitt frá ánni Moskvu og hét í fyrstu „гра́д Моско́в“ eða borgin við Moskvu. Árið 1295 varð borgin að höfuðborg furstadæmisins Moskvu. Þegar stórfurstadæmið varð að Rússneska keisaradæminu varð Moskva að höfuðborg og efnahagsmiðstöð keisaradæmisins. Pétur mikli flutti höfuðborg landsins til Sankti Pétursborgar á 18. öld, en Moskva varð aftur höfuðborg í kjölfar Októberbyltingarinnar 1917. Á tímum Sovétríkjanna varð borgin aftur að stjórnarsetri og efnahagslegri höfuðborg sovétlýðveldisins Rússlands og Sovétríkjanna allra. Eftir upplausn Sovétríkjanna varð borgin að höfuðborg sambandslýðveldisins Rússlands.
Moskva er nyrsta og kaldasta risaborg heims. Hún er alríkisborg (frá 1993)[10] og bæði stjórnarsetur, miðstöð rannsókna, menningarleg og efnahagsleg höfuðborg Rússlands og Austur-Evrópu. Moskva er eitt stærsta borgarhagkerfi heims, er ört vaxandi ferðamannastaður og ein af mest heimsóttu borgum Evrópu. Moskva er í fjórða sæti yfir borgir með flesta milljarðamæringa[11] og þar búa flestir milljarðamæringar af öllum borgum Evrópu. Viðskiptahverfið Moskva-Citi er stærsta viðskiptamiðstöð heims og með hæstu skýjakljúfa Evrópu. Íbúar Moskvu búa við eina bestu stafrænu innviði í heimi[12] og eina bestu rafrænu opinberu þjónustu í heimi.[13] Moskva var gestgjafi Sumarólympíuleikanna 1980 og hýsti Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 2018.[14]
Borgin er sögulegur miðpunktur Rússlands og þar er að finna helstu söfn, leikhús, skóla og stofnanir landsins. Í borginni er mikið af heimsfrægum arkitektúr og þá mest kirkjum. Eftir byltinguna árið 1917 var mörgum kirkjum og öðrum helgistöðum lokað eða breytt í söfn og sumir voru jafnaðir við jörðu. Þegar valdatíð Jósefs Stalín stóð sem hæst voru kirkjur og aðrar sögulegar byggingar rifnar til að búa til pláss fyrir vegaframkvæmdir. Á valdatíð Stalíns var lítið gert af því að viðhalda þeirri fegurð bygginga og arkitektúrs sem Moskva hafði áður verið þekkt fyrir. Til dæmis reisti hann nokkur gifsklædd háhýsi sem síðar voru kölluð „rjómatertur Stalíns“ í óvirðingarskyni. Þrátt fyrir það héldu margir helgidómar áfram starfsemi, líkt og kirkjur kristinna, guðshús gyðinga og moskur múslima. Á upphafsdögum Glasnost á seinni hluta níunda áratugarins losnaði um trúarbragðahöftin og hafist var handa við endurnýjun margra helgidóma borgarinnar. Meðal þekktustu kennileita borgarinnar eru Dómkirkja heilags Basils, Rauða torgið og Kreml þar sem ríkisstjórn Rússlands situr. Nokkrar heimsminjar er að finna í borginni. Í borginni eru fjórir alþjóðaflugvellir, níu lestarstöðvar, sporvagnakerfi, einteinungakerfi og Neðanjarðarlestarkerfi Moskvu sem er mest notaða neðanjarðarlestarkerfi Evrópu og eitt stærsta snarlestarkerfi heims. Græn svæði þekja 40% af borgarlandinu sem gera Moskvu að einni grænustu borg Evrópu og heimsins alls.[9][15]
Núverandi borgarstjóri í Moskvu heitir Sergej Sobjanín en hann varð borgarstjóri árið 2010.