Sigyn er gyðja í norrænni goðafræði. Hún er eiginkona Loka og á með honum soninn Narfa. Minnst er á Sigyn í ýmsum íslenskum heimildum: Í Sæmundareddu, sem var unnin upp úr eldri heimildum á 13. öld, og í Snorra-Eddu.
Eina goðsagan þar sem Sigyn birtist í mikilvægu hlutverki er sagan um refsingu Loka eftir víg Baldurs. Í sögunni binda æsirnir Loka niður með þörmum sonar hans og hengja nöðru fyrir ofan hann svo eitrið drjúpi úr gini hennar í andlit Loka. Sigyn bregður þá á það ráð að standa yfir eiginmanni sínum með skál til þess að grípa eitrið áður en það drýpur framan í Loka. Öðru hverju þarf hún að bregða sér frá til þess að hella úr skálinni. Þá drýpur eitrið framan í Loka, sem skekur sig svo af sársauka að kippir hans valda jarðskjálftum.
Mynd af Sygin með skál sína yfir Loka er á Gosforth-krossinum frá 10. öld á Englandi. Einnig vísar kvæðið Haustlöng í Snorra-Eddu til Sigynjar.